Kjúklingur með hvítlauk, chili og engifer

Kjúklingurinn er girnilegur

Kjúklingurinn er girnilegur

Eitthvað sem ég á alltaf til í ískápnum hjá mér og nota endalaust í réttina mína er hvítlaukur, ferskur rauður chili og engifer. Þessir þrír hlutir gefa svo ótrúlega gott bragð en hér ætla ég að gefa ykkur mjög einfaldan og hollan kjúklingarétt sem allir geta eldað! Að nota sesamolíu til að elda kjúklinginn finnst mér alveg gera gæfumuninn, en hún gefur smá hnetukeim og ilmar svo ótrúlega vel. Ég nota wok pönnu en það er auðvitað líka hægt að nota venjulega. Þú þarft:

Kjúklingabringu
Ristaða sesamolíu
1 hvítlauksrif
1/2 rauðann chili
1msk rifið engifer
Brokkolí (ég notaði sirka 100gr)
Blómkál (ég notaði sirka 100gr)
Salt og pipar
1 msk kotasæla ef þið viljið

Ég byrja á að skera smátt hvítlaukinn og chilíið og rífa engiferið. Næst sker ég blómkálið og brokkolíið frekar gróft. Svo tek ég kjúklingabringuna og sker hana þvert í mjög þunnar sneiðar. Svo hita ég smávegis af sesamolíu á wok pönnunni, set kjúklinginn á pönnuna, krydda með salt og pipar og steiki hann þar til hann er eldaður í gegn. Næst þvæ ég pönnuna og set svo örlitla olíu á hana (hér finnst mér betra að nota venjulega olíu eða pam sprey) og steiki hvítlaukinn, chilíið og engiferið í sirka 1 mínútu þar til það fer að ilma. Þá bæti ég brokkolíinu og blómkálinu útá og elda í sirka 5 mínútur á pönnunni eða þar til brokkolíið er orðið fallega grænt. Þá bæti ég kjúklingnum aftur útá og elda allt saman í 2-3 mínútur í viðbót. Í endann er gott að setja pínu sojasósu yfir og svo finnst mér ótrúlega gott að bæta 1 msk af kotasælu á pönnuna meðan hún er ennþá heit og hræra henni við kjúklinginn þar til hún bráðnar.