Sætkartöflu og gulrótarsúpa með kjúkling

 

1388535_10151809769155777_907014499_n

Mmm þessi súpa er svo yndisleg! Ótrúlega bragðgóð, mjúk og saðsöm. Líka mjög einföld og stútfull af góðum næringarefnum:) Uppskriftin er fyrir 2-3.

Þú þarft: 2-3 kjúklingabringur 1 miðlungs stór sæt kartafla, skorin í teninga 5 gulrætur, niðurskornar Góður bútur af engifer, smátt skorinn eða rifinn 1 miðlungsstór laukur 1/2 rauður chili 1 kjúklingateningur 3 bollar heitt vatn Salt og pipar

Ég byrja á búa til kjúklingasoð með því að leysa kjúklingateninginn upp í þrem bollum af heitu vatni. Skerið næst niður laukinn og chilið, hitið smá olíu í botninum á stórum potti, og eldið þar til laukurinn er orðinn mjúkur, sirka 2-3 mínútur. Ef laukurinn festist við botninn er gott að setja pínu vatn samanvið. Þegar laukurinn er mjúkur helli ég kjúklingasoðinu útá, og bæti við sætu kartöflunni, gulrótunum og engifer. Bíðið þangað til suðan kemur upp og lækkið svo hitann og leyfið að sjóða í sirka 15 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Á meðan grænmetið eldast sker ég kjúklinginn í bita og steiki á pönnu þar til hann er næstum eldaður í gegn.Takið næst súpupottinn af hellunni og sigtið grænmetið frá soðinu. Setjið grænmetið í matvinnsluvél eða blandara og maukið, bætið soðinu við eftir þörfum. Ég geri þetta í nokkrum skömmtum. Passið bara að ef þið eruð með plastkönnu á blandaranum að láta grænmetið kólna aðeins fyrst áður en þið maukið. Þegar ég er búin að mauka allt grænmetið helli ég öllu aftur í pottinn ásamt soðinu og hræri saman. Setjið kjúklinginn út í og leyfið að malla í smá stund. Smakkið til með salti og pipar. Það er mjög gott að setja smá doppu af grískri jógúrt eða sýrðum rjóma (ég nota 5%) ofaná og svo stráði ég fersku kóríander yfir. Ég bar súpuna fram með blómkálstortillu sem ég dýfði ofaní, ég notaði sömu uppskrift og af blómkáls pizzabotninum, og notaði ferskann rauðann chili og laukduft í deigið sem að passaði mjög vel með súpunni:)